Refsstaður

Refsstaður í Vopnafirði er blandað bú, með um 400 vetrarfóðraðar ær og 70 hross í allskonar verkefnum, og um 25-35 folöld fædd á hverju vori. Við slátrum um 550 lömbum og yfir 15 folöldum á ári. Búið er í eigu hjóna, Skúla Þórðarsonar sem er fæddur og uppalin á Refsstað og Berglindar Sigurðardóttur, frá Kvíabekk í Ólafsfirði.
Skúli er með sveinspróf í rafvirkjun og hefur verið bóndi síðan 1997, tók við sem sláturhússtjóri við Sláturfélag Vopnfirðinga hf árið 2004, og var framkvæmdarstjóri frá 2013. Þegar séð var að Sláturfélag Vopnfirðinga hf myndi hætta slátrun í byrjun árs 2024, var ákveðið að breyta fjósinu á Refsstað – sem hafði ekki verið í notkun í nokkur ár – í lítið sláturhús.
Skúli setti upp virkjun á Refsstað árið 2007, sem framleiðir rafmagn, sem nýtist bæði við búreksturinn, sláturhúsreksturinn og gefur af sér einhverjar umframtekjur.
Allt lambakjöt sem selt er hér á vefsíðunni er af okkar eigin lömbum, sem fæðast hér á bænum, ganga á túnunum okkar, og fara svo út í úthagann, er smalað heim á haustin og flokkuð í slátrun. Sláturréttin er ekki nema nokkur hundruð metra frá fjárhúsinu. Flutningsleiðir eru þar með takmarkaðar í þessari slátrun og kjötið er svo frágengið í sláturhúsinu hjá okkur. Síðan er það sótt af viðskiptavini til okkar, eða fer með flugfrakt eða Flytjanda beina leið til viðskiptavinar.
Á Refsstað búa 3 kynslóðir sömu fjölskyldunnar. Ágústa og Þórður, foreldrar Skúla, búa áfram í gamla húsinu á Refsstað og Þórður kom mikið að framkvæmdinni við að breyta fjósinu í sláturhús. Berglind og Skúli búa í húsi sem Skúli byggði um 2000, og leggja sig fram við búreksturinn í einu og öllu, en þau eiga 2 geitur, 2 hunda, 2 ketti og hænur og endur umfram kindur og hross.
Berglind og Skúli eiga 2 börn á grunnskólaaldri, sem taka virkan þátt í bústörfum, sérstaklega á sauðburði og smalamennskum.
Einnig býr Gíslína, dóttir Skúla á fullorðinsaldri, í annari íbúð í gamla húsinu. Hún er dýralæknamenntuð og meðfram annari vinnu er hún gæðastjóri sláturhússins. Hún tekur einnig virkan þátt í bústörfum, sauðburði, smalamennskum og stekkur til ef eitthvað dýr verður veikt eða slasast.
Fjölskyldan ríður mikið út og stór hluti hrossanna er því reiðhestar, en einnig er folaldaræktun bæði fyrir eigin eigu, sölu og folaldakjötframleiðslu.